Frístundastyrkir

Frístundakortið

Frístundakortið er styrkjakerfi í frístundastarfi fyrir 6–18 ára börn og unglinga með lögheimili í Reykjavík. Styrkurinn er 50.000 krónur á ári og þú getur notað hann til þess að greiða niður hluta af þátttöku- og æfingagjöldum barnsins þíns. Frá 1. janúar 2023 verður styrkurinn 75.000 krónur á ári. Það er opið fyrir ráðstöfun frá 1. janúar - 31. desember. 

Það þarf ekki að sækja sérstaklega um frístundastyrkinn heldur þarf forráðamaður barns að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum inná mínum síðum Reykjavíkurborgar og þar er hægt að sjá stöðuna á styrknum.

Innheimta aðildarfélaga er með ýmsum hætti og er mikilvægt að forráðamenn kynni sér hvernig er háttað hjá aðildarfélagi síns barns. Félögum er heimilt að ákveða sjálf lokadag ráðstöfunar á hverri önn svo hægt sé að ganga frá innheimtu eftirstöðva séu þær einhverjar. 

Ef barnið þitt verður sex ára á árinu á það rétt á styrk frá 1. janúar það ár og út árið sem það er 18 ára. Einstaklingar á 18 ári þurfa að skrá sig sjálfir til þess að ráðstafa styrknum.

  • Athugaðu að ráðstöfun Frístundakorts fer nú eingöngu fram í gegnum skráningarkerfi félaga en ekki í gegnum Rafræna Reykjavík.
  • Athugaðu að þú getur ekki flutt styrkinn á milli ára og ekki er heimilt að flytja hann á milli barna. Eingöngu foreldrar með sama lögheimili og barnið geta notar styrkinn og er það gert rafrænt.
  • Athugaðu að ekki þarf að sækja um styrkinn, hann er til ráðstöfunar undir kennitölu forráðamanns með sama lögheimili og barn. 

 

Markmið og tilgangur Frístundakortsins í Reykjavík

Meginmarkmið Frístundakortsins er að öll börn og unglingar í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Með Frístundakortinu má greiða að hluta eða að fullu fyrir íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi á vegum félaga og samtaka sem starfa í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Frístundakortið eykur jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Með Frístundakortinu skapast einnig möguleikar til nýrrar starfsemi og sérstakra verkefna sem beinast að ófélagsbundinni æsku í hverfum borgarinnar. Ekki er um beingreiðslur til forráðamanna að ræða, heldur hafa þeir rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum.

 

Skilyrði félaga sem gerast aðilar að Frístundakortinu 

Meginskilyrði félaga sem gerast aðilar að Frístundakortinu er að starfsemin sé á forsendum uppeldislegar gilda og forvarna í víðum skilningi. Starfsemin fari fram undir leiðsögn hæfra starfsmanna og leiðbeinanda sem hæfir starfi með börnum og unglingum. Styrkhæf starfsemi þarf að vera í 8 vikur samfellt hið minnsta. 

https://reykjavik.is/sites/default/files/skjol_thjonustulysingar/fristun...

 

Frístundastyrkir í Hafnarfirði

Mánaðarlega styrkir Hafnarfjarðarbær hvern iðkanda frá 6-18 ára aldurs til lækkunar á þátttökugjöldum um kr.  3.000.-  Ekki er hægt að fá þennan styrk nema einu sinni í hverjum mánuði.

Við rafræna skráningu barns í starf hjá íþrótta- og tómstundafélögum geta foreldrar valið að nýta styrkinn og draga hann frá þátttökugjöldum.

Nánar um frístundastyrki í Hafnarfirði
Reglur um niðurgreiðslu frístundastyrkja í Hafnarfirði